Fimmtudagur 17. júlí 2003
Ekki var nú mikið unnið í dag…
Skömmu eftir að ég mætti í skólann/vinnuna, hjólaði ég yfir í barnaspítalann til að fá tekna blóðprufu fyrir svokallað AFP próf. Þetta er það sem boðið er upp á í staðinn fyrir legstungu fyrir tilvonandi mæður til að sjá hvort barnið gæti verið með Downs eða þvíumlíkt, en hér í USA tíðkast ekki að senda konur í hnakkamælingu (eins og mér er sagt að tíðkist heima) nema þær séu eldri en 35 ára. Prófið er ekki alnákvæmt, er okkur þótti rétt að fara samt í það enda ekki hættulegt fyrir barnið. Niðurstöður ættu að liggja fyrir eftir 10 daga eða svo.
Reyndar lenti ég í aðal-pirri dagsins við þetta, því blóðtökubiðsvæðið reyndist yfirfullt af fólki, og ég held að ég hafi beðið í næstum klukkutíma. Þegar loksins kom að mér (þ.e. þegar konan leit á nafnið mitt og ég sá hana geifla munninn hljóðlaust til að ímynda sér hvernig hún ætti að segja Gunnarsdottir) byrjaði hins vegar vesenið fyrir alvöru… Ég er nefnilega með alveg gjörsamlega vonlausar æðar! Þær eru svo vonlausar að konan í Blóðbankanum heima bað mig kurteisislega að hafa ekkert fyrir því að koma aftur…!!! 🙂 Enda endaði konan í dag á því að taka (sjúga með sprautu) blóð úr handarbakinu á mér… áái! 🙁
Þar með var ég komin í pirrað skap fyrir daginn, og gerði ekkert af viti nema rekast á (ó, nei!! þar með missti hún endanlega vitið) blogg ófrískra kvenna. Fyrsta bloggið sem ég byrjaði að lesa var skrifað af sjónvarps-hetju sem við sáum oft á TechTv þegar við bjuggum á kampus, henni Megan! Þar með þurfti ég að finna fleiri, en eftir smá gúglun hef ég komist að þeirri niðurstöður að blogg þar sem ófrískan kemur bara örlítið við sögu séu skemmtilegri en þessi “í dag vaknaði ég aftur klukkan 04:30 og setti á mig inniskóna og labbaði síðan inn á bað og…!!” þannig að kannski að ég reyni að forðast svoleiðis upptalningu upp á hvern einasta blogg-dag! 🙂 Ég píni bara skólafélagana með því í staðinn!!! 😉 hehe!!