Fimmtudagur 24. júlí 2003
Karlahatur
Ég kláraði enn eina bók eftir Maeve Binchy í gærkvöldi, og var nú eiginlega bara hálfsjokkeruð! Bókin virtist nefnilega hafa verið skrifuð þegar hún var á einhverju rosalegu karlahatursskeiði því allar greyið karlpersónurnar voru hver annarri verri! (SPOILERAR byrja!!) Bókin greinir frá tveimur vinkonum (ein írsk, ein ensk) og lífi þeirra frá 10 ára aldri til tæplega þrítugs. Karlmennirnir í lífi þeirra eru 1) Mikill gígaló sem er frábær elskhugi en neitar að láta binda sig og heldur stanslaust framhjá, sem er allt í lagi því sambandið var “opið”. Þetta lætur sú enska yfir sig ganga í 7 ár (!!!) þar til hún loksins nær áttum og verður ástfangin af 2) eiginmanni sínum og eignast barn. Hann reynist vera fínn þar til skapgerðargallar (sömu og faðir hennar þjáist af) koma upp á yfirborðið og hann fer að meta sjálfan sig eftir því hvernig honum gengur í vinnunni, sem er ekki nógu vel (fær ekki launa/stöðuhækkanir), og þau fara að rífast stanslaust.
Hin vinkonan (þessi írska) giftist 3) manni sem er 10 árum eldri en hún sjálf, sem reynist vera getulaus og svakalegur alkahólisti í þokkabót!! Hún yfirgefur hann loksins og flýr til London (því það er víst konunni að kenna ef eiginmaður drekkur…?) og þar tekur hún saman við 1) og síðan við 4) sem er vinur 3) og kemur til hennar til að fá smá kynlíf því konan hans er svo kasólétt að kynlíf er úr sögunni!!! Ok, ekki nóg með það heldur drepst 3) úr lifrarbólgu ári eftir að konan fer frá honum og hin vinkonan endar á því að ýta 2) (eiginmanni sínum) niður stigann og hálsbrjóta hann þegar hann kemur heim fullur eina nóttina eftir að hann fékk ekki væntanlega stöðuhækkun!!! Það mætti kalla það sjálfsvörn, svona fyrir utan það að hún lokar síðan íbúðarhurðinni á eftir sér og fer að hugga barnið/sofa = dauðsfall af slysförum!
Sum sé, karlmenn eru drykkfeldir, ofbeldisfullir, sjálfselskir, kynóðir (eða getulausir) og í raun bestir dauðir!!! Og í lokin þá viðurkenna þær að þetta hafi nú ekki gengið alveg nógu vel hjá þeim og að þær þurfi líklega að byrja upp á nýtt… (SPOILERAR enda!!)
Svo sá ég reyndar að þetta var hennar fyrsta bók, sem skýrir málið aðeins því hinar bækurnar sem ég hef lesið eftir hana hafa verið miklu “eðlilegri” og í meira jafnvægi… Skrítið!
Jóga
Hei, já, svo er ég farin að stunda óléttujóga eins og hún Sonja mælti með. Voða næs, þó reyndar sé ég “lang minnst komni” þáttakandinn enn sem komið er, bara komin 16 vikur á leið.