Miðvikudagur 28. maí 2003
Sund og hiti
Eftir að hafa verið á leiðinni í sund í viku (ahemm), fór ég loksins í dag, enda sá ég fram á að eitt forritið mitt þyrfti hvort eð er 45 mínútur til að keyra, og ég nennti ekki að gera neitt af viti á meðan. Ég fór í litlu 25m laugina sem í 2ja mínútna göngufæri við bygginguna mína (í staðin fyrir stóru 50m laugina í 15 mínútna göngufæri), og það var bara ágætt. Það eina sem var óþægilegt, var að þegar ég kom upp úr og var að klæða mig í, þá var svo heitt inni í búningsklefunum að ég sat bara og svitnaði! Enda var ég að sjá núna áðan að það er 31 stiga hiti úti!!!
Sjónvarpið frelsað
Annars hefur lítið verið að frétta undanfarið. Helst bar það til tíðinda að við sögðum upp “digital cable” sjónvarpsþjónustunni og misstum þar með einhverjar 50-100 stöðvar og tókum aftur upp “basic cable“. Munurinn þar á er að maður þarf afruglara til að ná “digital” stöðvunum, og það fór alveg með okkur hvað hann var illa hannaður. Í hvert skipti sem maður vildi taka upp á vídeóinu þá þurftum við að stilla afruglarann á rétta stöð, þannig að maður gat aldrei horft á einn þátt á meðan maður tók upp eitthvað á annarri stöð!! Maður gat heldur ekki treyst því að vídeóið tæki upp rétta stöð á “timer” því vídeóið sá bara afruglarastöðina… Í öðru lagi þá tók það afruglarann alltaf heil-langan tíma að skipta milli stöðva, sem gerði stöðvaflakk afskaplega pirrandi.
Það eina sem maður saknar svolítið er að þegar maður hoppaði milli stöðva á afruglaranum, þá birtist á skjánum hvað maður var að horfa á, og maður gat fengið nánari upplýsingar. Svo á ég líka eftir að sakna BBC America og G4-TV 4 Gamers!