Föstudagur 30. maí 2003
Furðulegur dagur
Erum að fara á Coldplay tónleika á eftir – og svo í tjaldútilegu um helgina.
Og fyrir þá sem vilja vita þá gekk Prófessor Martin E. Hellman inn á skrifstofuna mína í dag að spyrja mig (?!?!) ráða um hvernig væri best fyrir hann að setlja fyrirlestra á netið… (Kemur í ljós að ein skrifstofukonan veit að ég geri “vefdót” svo hún benti á mig – ekki að ég gæti mikið hjálpað honum reyndar.) Hann Leif skrifstofufélagi birtist fljótlega til að ræða málin, og þegar við vorum búin að ræða um vefmál fór Leif að spyrja hann spurninga um hluti sem ég vissi ekkert um… Það var ekki fyrr en Hellman var farinn að við sáum að Leif sat eftir með þetta líka brjálæðislega glott á andlitinu! Kemur í ljós að gæinn fann upp “public key encryption” og var fyrsti maðurinn til að birta grein um dulkóðun á “almenna markaðinum” – og var lagður í einelti af hernum í mörg ár á eftir…
Sem sagt Leif sat eftir eins og hann hefði tekið í hendina á rokkstjörnu á meðan við hin vorum svona meira “haaa?!”… Svona er maður nú fáfróður… 😉
Nýjasta nýtt!
Komin heim eftir tónleikana! Þetta var bara rosagaman!! 🙂 Við lögðum í 20 mínútna göngufjarlægð frá Shoreline Amphitheatre (eftir 7 mínútna keyrslu), sem er svona í “grískum leikhúsastíl” – eða með niðurgrafið svið, sæti upp frá sviðinu og svo heljarinnar grasbrekku fyrir ofan sætin. Síðast þegar við fórum þangað þá vorum við hálfa leið frá sviðinu eða í ofarlegum sætum, sem var fínt, þrátt fyrir að maður væri helst til langt frá sviðinu. Og þar sem við erum að fara í betri sæti í september (REM) þá ákváðum við að prófa að vera á grasflötinni í þetta sinn – og það var bara ágætt! Það var skemmtileg tilbreyting að mæta með teppi, leggja það niður og svo kúra þar til tónleikarnir byrjuðu! 🙂 (Það skal samt viðurkennt að ég sakna þess örlítið að vera ekki í troðningnum í Höllinni, þar sem maður getur verið alveg upp við sviðið ef maður bara mætir nógu snemma – og það eru ódýru miðaranir!!) 🙂
Við sem sagt fundum okkur stað ofarlega í brekkunni þar sem einn sjónvarpsskjárinn og sviðið voru nokkurn veginn í beinni sjónlínu frá okkur (við vorum of seint á ferðinni til að fá sæti neðar)… Svo bara byrjuðu tónleikarnir rúmlega níu og Coldplay stóðu sig eins og hetjur! Þetta munu vera stærstu tónleikarnir þeirra hingað til, með 20 þúsund manns og við fengum eitt aukalag fyrir það! Við fengum líka sérstakar þakkir fyrir að nenna að vera í “níu mílna fjarlægð þarna uppi”… 🙂
Í stuttu máli sagt þá er aðalsöngvarinn heillandi “spassi”, gítarleikarinn átti sín gítarleikara”móment” þar sem hann var voða aktívur, trommarinn var þéttur allan tímann og bassaleikarinn virtist þurfa að einbeita sér mjög mikið því hann hreyfði sig eiginlega ekkert alla tónleikana! 🙂 Og já, ég er rám.
Það gekk síðan vel að komast heim. Við hraðgengum að bílnum og vorum komin heim 35 mínútum eftir að tónleikunum lauk – og fórum strax að pakka fyrir tjaldferðalagið. En þar með endaði afmælið mitt sem byrjaði 1. mars (!!!) því þetta var afmælisgjöfin mín frá Finni! Takk snúlli! 🙂