Mánudagur 28. apríl 2003
Hvert fór helgin?!
Helgin leið allt of hratt. Á föstudaginn var kallað til CoHos (þ.e. fólk hittist á kaffihúsinu á kampus) – þar sem ekki var seldur bjór eftir klukkan 18:00 til að styggja ekki tilvonandi nemendur (ca. 18 ára) og foreldra þeirra sem heimsóttu skólann í síðustu viku (!!!). Kvöldið leið síðan yfir Strictly Ballroom sem er alltaf jafn fín mynd.
Laugardagur: Tiltekt og hringt í fjölskylduna.
Sunnudagur: Við Finnur keyrðum upp í San Fran og þáðum fínasta hádegsisnarl hjá Úlfari og Lottu (ásamt Guðrúnu & Snorra og Jónínu & Eggerti + afkomendum) áður en við röltum í bíó á Alþjóðlegu Kvikmyndahátíð San Francisco til að sjá Hafið! 🙂 Okkur fannst myndin fín (ég er ekki á því að fjölskyldan mín blikni í samanburði við þessi ósköp!! 😉 og eftir myndina stóð Baltasar Kormákur sjálfur fyrir svörum um myndina sem var extra bónus. Þar kom meðal annars fram að hann hafi vísvitandi verið að skjóta á íslensku lögguna, enda lagður í einelti af henni í 10 ár á sínum yngri (og villtari) árum… Einnig minntist hann á að hann hefði valið Neskaupsstað því honum fannst húsin þar svo ljót, en auðvitað gat hann ekki sagt íbúum bæjarins það – sem auðvitað tóku þegar að mála og laga húsin sín einmitt þegar taka átti myndina upp… 🙂 Þegar hann var spurður hvort Íslendingar væru fordómafullir gagnvart útlendingum þá hugsaði hann sig aðeins um og spurði svo hvort spyrjandinn vildi heyra sannleikann… Spyrjandinn játti því og Baltasar viðurkenndi að við Íslendingar erum rasistar (eins og allir aðrir). Hann sagði reyndar að hlutirnir hefðu lagast mikið, en þegar Spánverjinn pabbi hans hefði flust til Íslands á sjötta áratugnum þá hefði hann víst lent í mörgu ljótu. Hmm, hvað annað…? Hann sagði að fólk þyrfti að flytjast frá Íslandi til að kunna að meta það – og að það væri “contrastinn” sem heillaði hann hvað mest, þ.e. að geta verið á hestbaki á sumri til og liðið eins og kóngi, og vera svo laminn niður af ömurlegu veðri á veturna… 🙂
Svo um kvöldið bauð ég “stelpunum” úr skólanum í heimsókn, við átum og töluðum og það var voða fínt. Hún Kamakshi (indversk) kom með henna dót og málaði á mér lófann undir lokin! 🙂