Þriðjudagur 29. apríl 2003
Ummælakerfis-uppfærsla
Á meðan ég fór með Elsu og Guðrúnu á Piedras (spænsk mynd, sýnd á SF kvikmyndahátíðinni), þá sat Finnur sveittur við hérna heima og bætti við fítus í ummælakerfið. Nú er það svo að ef einhver svarar ummælum með því að smella á þar-til-gerðan stiklulegg, þá sendist svarið á alla þá sem eru ofar í ummælakeðjunni – að því gefnu að ummælandinn hafi skilið eftir tölvupóstfang! 🙂 Hann er svo sniðugur þessi elska!! 🙂
Rannsókn
Annars gerðist það í fréttum í dag að einhver kona “á besta aldri” birtist á skrifstofunni til að taka viðtal (með vídeókameru og allt) við Kerri því hún “bloggar“. Kemur í ljós að konan er í einhverri félagsfræðideildinni og rétt nýbyrjuð á blogg-rannsókn og Kerri var fyrsta viðfangsefnið :). Ég reyndar hélt því fram að Kerri væri ekki mikill “bloggari”, hún bloggaði að meðaltali tvisvar í mánuði og bloggið væri yfirleitt hálfgerður verkefnalisti. Eftir smá rabb kom hins vegar í ljós að konan var yfir sig hrifin af trúlofunarsögunni – og taldi það vera “blogg”. Það með uppgötvaði ég blogg-snobbistann í sjálfri mér… Er blogg bara blogg ef það er hreinn texti með einstaka myndum sem er uppfærður amk 2-3 í viku? Eða er það líka blogg að vera með svona myndasíður eins og við Finnur erum með hérna til vinstri?
Mér finnst erfitt að kalla “myndasíðurnar” “blogg” því þær eru einhvern veginn “kjötmeiri” og það fer miklu miklu meiri vinna í þær heldur en bloggið. En hvaða fyrirbæri er það þá að vilja sýna öllum myndirnar sínar?!?! Hmm… Ég fæ víst að velta mér meira upp úr þessu seinna, því konan vill víst tala við mig líka – þrátt fyrir að ég bloggi á íslensku… hehe… 🙂