Þriðjudagur 18. febrúar 2003
Ætli það geti kallast ótillitssemi?
Á þriðjudögum og fimmtudögum fer ég í “tónlistartíma”, reyndar er þetta argasti “signal processing” tími og hefur lítið með tónlist að gera fyrir utan það að kúrsinn er kenndur í CCRMA við Stanford þar sem tölvutónlist (t.d. synthesiserar) er í hávegum höfð. Af einhverri undarlegri ástæðu þá er tíminn á þriðjudögum helmingi lengri en hinn, opinberlega 1 klst og 50 mínútur, en þar sem prófessorinn er kjaftaskur þá losnar maður oft ekki fyrr en eftir rúma tvo tíma – og varla með starfandi heila eftir allt þetta kjaftaskrum.
En þá kemur að ókurteisa partinum (er það nú reyndar ekki nóg að prófessorinn fari reglulega 10-20 mínútur yfir sett tímamörk?)… það er einn gæi í bekknum sem virðist elska þetta námsefni út af lífinu, sem kemur fram í því að hann er alltaf að spyrja spurninga, og koma með komment í tíma og ótíma – sem væri svo sem í lagi ef prófessorinn gæti haldið sig að efninu þrátt fyrir truflunina… en ónei! Hann étur þetta allt upp eftir honum og heilu hálftímarnir fara í einhverja útidúra þar sem ég (og restin af hópnum geri ég ráð fyrir) loka eyrunum og velti því fyrir mér hvort ég ætti bara að gefast upp og ganga út (sem gerist aldrei því ég er hæna) eða bara halda áfram að teikna krúsidúllur í bókina mína þar til proffinn snýr sér aftur að “námsefninu”…?
Er það bara einhver vitleysa í mér – eða er það ekki ókurteisi að eyða tíma annarra í eitthvað sem bara maður sjálfur vill vita og getur alveg eins spurt proffan að eftir á? grrrr…. Og er eitthvað hægt að gera í málinu?!? 🙂