Miðvikudagur 1. janúar 2003
GLEÐILEGT NÝTT ÁR!!
Við Finnur vorum að koma heim eftir að hafa dvalist í góðu yfirlæti hjá Guðrúnu og Snorra í 23 klukkustundir! Svo var nefnilega mál með vexti að þau héldu 40 manna gamlárspartý og við mættum til þeirra klukkan 19 um kvöldið – sváfum svo í gestaherberginu og eyddum nýársdegi í spilamennsku, áður en við skakklöppuðumst heim klukkan 18 daginn eftir! 🙂
Partýið var algjört mega-partý, maturinn var rosagóður, og stuðbandið Flóttmennirnir tróðu upp mínus söngarinn Björgvin, sem var heima á Íslandi. Það var því kareókí með Flóttamönnunum og það var bara gaman! 🙂 Við skáluðum í kampavíni/freyðivíni klukkan 12 á miðnætti og síðan var spjallað o.s.frv. til um tvö þegar flestir fóru heim, nema ég og Finnur sem vorum búin að panta gestaherbergið.
Við vöknuðum síðan á hádegi, í nokkuð góðu ásigkomulagi, fyrir utan að ég er komin með ógeðslega hálsbólgu, og hausinn á mér er allur að fillast af kvefslími. Einmitt besta leiðin til að hefja nýtt ár – eða þannig! 🙂
Við óskum ykkur öllum gleðilegs nýs árs, og þökkum fyrir allt gamalt og gott! 🙂