Miðvikudagur 8. janúar 2003
Skólinn skríður af stað
Skólinn byrjaði í gær. Ég verð í tímum á þriðjudögum og fimmtudögum, og svo er einn leikfimitími á mánudögum og miðvikudögum – sem ætti að vera nokkuð “næs”. 🙂 Heilsar er öll að koma til, er ennþá reyndar með hellur í eyrunum af og til, en annars er ég góð. Nú er hins vegar Finnur að leggjast í flensu, og það á versta tíma því hann á að skila ákveðnu verki af sér í vinnunni á föstudaginn… 🙁
Framköllun
Ég ákvað að gera smá samanburð á framköllun hjá Ofoto og Snapfish, sem taka við myndum á netinu, prenta á Kodak pappír og senda manni í pósti. Niðurstaðan var sú að ef maður vill skarpar myndir þá er betra að senda til Snapfish, því að Ofoto virðist “smooth-a” myndirnar (taka hana örlítið úr fókus, setja vaselín á linsuna, “low-pass” sía). Sem sagt, ef maður er með mynd sem er aðallega bara andlit, þá er húðin fallegri frá Ofoto (minni litabreytingar og hrukkur) en ef andlitið er í fjarska (lítið), þá er það betra hjá Snapfish því þeir “mýkja” ekki myndirnar. Hvað varðar liti, þá sáum við aðallega mun á bláum, sama peysan var ekki eins á litin frá báðum og blái kjóllinn minn varð fjólublár hjá Snapfish – en þar sem ég prófaði ekki að senda hann til Ofoto veit ég ekki hvernig þeir myndu höndla hann! 🙂