Laugardagur 11. janúar 2003
Alveg splúnkunýr táningur…
Hann Pétur Breki litli (en samt miklu hærri) bróðir minn er 13 ára í dag! Til hamingju með afmælið Pési!! 🙂
Myndir, myndir og fleiri myndir!
Ég flakkaði á milli búða í dag, fór til CostCo að skila Monty Pythong DVD-diska-safninu sem ég vann í jólaboði GB fyrir jólin – og keypti svo tvö myndaalbúm í WalMart þar sem gamla myndaalbúmið fór úr límingunni og er þar að auki orðið fullt.
Eftir að hafa tæmt gamla albúmið sat ég í kvöld og raðaði þeim myndum sem við eigum í grófa tímaröð (ég var nefnilega búin að vera að framkalla einhverjar myndir af stafrænu vélinni, og líka analog vélinni og þetta var allt í algjöru rugli) og síðan sat ég það sem eftir var kvöldins og fletti í gegnum myndadagbókina á vefnum, samhliða alvöru myndunum, skrifaði þær myndir sem ég á eftir að láta framkalla á blaðsnepla, sem ég setti síðan á sinn stað í albúm. Um tvöleytið í nótt nennti ég ekki meiru, en þá var ég búin að skrifa svona 150 myndir niður…
Annars gerðist það helst til tíðinda að gæinn sem býr við hliðina á okkur hélt partý (bauð okkur reyndar en ég afþakkaði, kann ekki að díla við svona ókunnugt fólk!) þannig að við heyrðum svona “dúmm, dúmm, dúmm” í gegnum vegginn í allt kvöld. Reyndar eru íbúðirnar alveg ótrúlega vel hljóðeinangraðar, þannig að þetta er í allra allra fyrsta sinn sem við heyrum í honum! 🙂