Miðvikudagur 29. janúar 2003
Minna skemmtileg umræðuefni
Í þetta sinn stóðu tveir drengir fyrir skrifstofuumræðu dagsins. Malasíski skrifstofufélaginn minn kom með þá kenningu að það væri hollt að beita drengi líkamlegri refsingu á milli þrettán og átján ára aldurs. Þeir væru með svoddan læti á þessum árum og hefðu gott af kinnhesti hér og þar til að koma þeim á réttan spöl. Að sjálfsögðu ætti þetta bara við drengi og bara á árunum milli þrettán og átján… Við hin reyndum okkar besta til að telja hann ofan af þessari bölvuðu vitleysu, enda ég á þeirri skoðun að ofbeldi kenni bara meira ofbeldi og það leiði til algjörs rugls, en höfðum (grunar mig) ekki erindi sem erfiði. Hann sagðist ekki hafa verið laminn sjálfur – en þótti þetta góð hugmynd.
Út frá þessu spratt síðan örskömm umræða um umskorningu drengja, sem er mjög mjög almenn í Bandaríkjunum og meðal gyðinga og múslima, sem þýðir að afar margir af þeim drengjum sem ég þekki eru umskornir. Frá sömu umræðuaðilum og áður fékk ég það upp að það að vera ekki umskorinn þýðir það sama og “óhreinindi”… Einn sem er sonur læknis hafði fengið það staðfest að þetta væru heilsusamlegra. Ég benti á að varla er til umskorinn karlmaður í Evrópu og ekki eru neinir typpa-sjúkdóma-faraldar þar, amk ekki meira en í Bandaríkjunum, en það þótti ekki nógu sannfærandi. Rökin með að þetta minnki tilfinninguna í fremsta parti typpisins þóttu heldur ekki merkileg…
Til að gera daginn ennþá betri þá sá ég af og til fyrir mér lítil typpi á nýfæddum strákum það sem eftir var dagsins (ég hef sko skipt á mörgum mörgum bleium um ævina) og hvernig það myndi vera að horfa upp á eitthvað skorið af þeim… *hrollur, viðbjóður, gremja, ógleði*…. 🙁 Af hverju gerir fólk þetta?!??!?!?!? Ætli þeir geti samt ekki prísað sig sæla fyrir að ekki er hægt að skera mikið af þeim án þess að skera í þvagrásina – öfugt við stúlkubörn sem hægt er að skera í tætlur án þess að lenda í miklum hremmingum út af þvagrásinni… 🙁 🙁 🙁