Þriðjudagur 17. desember 2002
Hætt að þykjast geta unnið
Í gær mætti ég í skólann því ég þóttist geta unnið. Í ljós kom að sjálfsögðu að ég er löngu komin í andlegt jólafrí þó ég hafi ekki alveg viljað viðurkenna það fyrir sumum pörtum af sjálfri mér (þessum samviskubitnu, ofurduglegu pörtum) og því gerði ég ekkert. Gerði reyndar góðverk og fór á pósthúsið fyrir Linscott því hann var með mann í heimsókn en þurfti bráðnauðsynlega að koma svolitlu í póst. Ég notaði tækifærið og rölti um kampus í klukkustund og tók 40 myndir…
Í dag er ég nú bara búin að kúra í rúminu og lesa Mynd örlaganna eftir Isabel Allende sem Finnur gaf mér í jólagjöf í fyrra en ég náði aldrei að herða nóg upp hugann til að lesa fyrr en nú…
PHP samskiptakerfi?!
Ég er að leita mér að “commenta-kerfi” sem keyrir á Win 2000, Apache vefþjón og PHP til að setja upp fyrir bloggið mitt. Ég vil nefnilega ekki nota þjónustu hjá einhverjum öðrum sem endar á því að hægja á síðunni minni og gefa síðan upp öndina… Endilega sendið póst (h r e f n a @ s t a n f o r d . e d u) ef þið vitið um eitthvað… 🙂