Miðvikudagur 25. desember 2002
Bílferð og jólaboð
Við lögðum af stað frá Los Angeles klukkan 2 eftir hádegi og keyrðum á 80 mílna hraða per klst svo til alla leiðina norður því það var eiginlega engin traffík… enda jóladagur og lítil ástæða til að vera á ferli fyrir flesta! Það tók okkur því bara fjóran og hálfan tíma að keyra til Jónínu og Eggerts í San Jose (sem búa 20 mínútum sunnan fyrir okkur) sem þýðir að við slógum enn eitt hraðametið enda lentum við ekki í einni einustu umferðarteppu á leiðinni! 🙂
Hjá Jónínu og Eggerti var aldeilis fjör því þar voru samankomið Íslendingastóð í jólaboði! Þegar okkur bar að garði var verið að spila jólagjafaleik, en þar sem við bjuggumst alls ekki við að mæta svona snemma vorum við pakkalaus og átum því bara glöð hangikjöt, uppstúf og laufabrauð á meðan jólagjafirnar voru opnaðar og stolið á tvist og bast! 🙂 Síðan var spjallað og sett á svið leikrit (bæði fullorðnir og börn) og í lokin spiluðum við Leonardo og Co. spilið sem við Finnur fengum frá bræðrum mínum á Íslandi! Það var bara gaman að því, Soffía, Finnur og Snorri fóru með sigur af hólmi, og það er nokkuð ljóst að það þarf að spila þetta aftur! 🙂
Um ellefu leytið skröltum við heim geispandi og hrundum í rúmið… eftir að ég var búin að klára The Nanny Diaries sem ég fékk frá Finni í jólagjöf… Þvílík og önnur bók!! Ég var nú bara hálf miður mín yfir öllu sem gekk á í bókinni… greyið barnfóstran og greyið barnið og úff bara… en þetta var nú samt fyndin bók og gaman að kíkja inn í aðra heima… 🙂