Mánudagur 4. nóvember 2002
Mocca!
Þrátt fyrir letihelgi þá var ég alveg grútmygluð í morgun, og hélt mér varla vakandi í gegnum fyrirlestrana milli 9 og 11. Eftir seinni tímann skreið ég inn í Packard (rafmagnsverkfræðibygginguna) og spurði konuna í kaffihorninu hvort það væri nokkuð til drykkur sem sameinaði kakó og kaffi. Hún leit á mig eins og ég væri hálfviti og sagði “mocca” sem er það sem ég pantaði. Það skal tekið fram að ég drekk ekki kaffi – eða öllu heldur – þau skipti sem kaffi hefur farið inn fyrir mínar varir er teljandi á fingrum annarar handar… held ég.
En þannig fór það svo að ég drakk vísvitandi kaffidrykk í morgun, og það sem meira var, hann var bara næstum góður á bragðið! 🙂 Sem afleiðingu af því var ég glaðvakandi í allan dag og rumpaði meiri að segja af einum heimadæmaskammti – sem verður að teljast afrek! 🙂 Nú er bara að vona að ég sofni einhvern tímann!! (By the way – góður Everwood þáttur í kvöld… hehe)
Gagnrýnirinn ég
Kvölin er á “næsta leyti” fyrir þá sem ekki eru svo heppnir að hafa náð henni hingað til, t.d. Söruh og Erin. Hann Linscott (sem ég vinn hjá) tók mig og Fayaz í einkatíma í fyrra, og núna er komið að Söruh og Kamakshi, sem er annar nemandi hjá honum. Ég sat sem sagt inni á skrifstofu hjá Linscott á meðan hann lagði spurningar fyrir Söruh og Kamakshi til skiptis, og kom síðan með gagnrýni á hvernig þær hefðu borið sig að o.s.frv. Það verður ekki annað sagt en að það sé miklu miklu auðveldara að gagnrýna en svara!