Fimmtudagur 14. nóvember 2002
Lyfjafræðilegt stórslysasvæði
Það er ég. Reynar kannski ekki stórslysasvæði, en konan í apótekinu þekkir mig núna með nafni… sem er hingað til óþekktur áfangi í mínu lífi. Svo er mál með vexti að ég fór til húðsjúkdómalæknis á þriðjudaginn, og kom til baka með heil FJÖGUR mismunandi krem til að bera framan í mig… Eitt sýklalyf fyrir bólurnar, eitt sýrudæmi eitthvað (ÁiÁi!! Stingur og svíður og klæjar!!!) líka fyrir bólurnar, eitt steralyf við psoriasinu og svo eitt sveppalyf – svona bara til öryggis ef hin þrjú næðu ekki að drepa allt sem hægt er að drepa í andlitinu á mér!!! 🙂 Svo til að bæta gráu ofan á svart þá vaknaði ég með blöðrubólgu í morgun, svo nú bryð ég bakteríudrepandi töflur (með mat eða mjólk að sjálfsögðu) fjórum sinnum á dag… #andvarp#…
Það skal hins vegar tekið fram að núna eru augnlinsurnar mínar komnar – og að það eru bara nákvæmlega tvær vikur í þakkargjörðarhátíðina og meðfylgjandi ofur-keyrslu-ferð til Los Angeles og til baka í brjálaðri traffík… 🙂 Ég get varla beðið! 🙂