Laugardagur 12. október 2002
Heimadæma-casualty
Síðasta vika einkenndist svo af heimadæma-panikki (2 stk á föstudögum) eftir “alvöru” vinnu (þ.e. “rannsóknir”) bæði mánudag og þriðjudag, svo ekki sé minnst á að þriðjudags og fimmtudagskvöld voru ónothæf vegna köfunar – svo ég ákvað að fórna laugardeginum (í dag) í að gera heimadæmi fyrir næsta föstudag. Ég á nefnilega að halda smá tölu um hvað ég hef verið að gera eftir eina og hálfa viku svo það er eins gott að heimadæmin fari ekki að flækjast mikið fyrir.
Þess fyrir utan þá erum við að fara til Monterey um næstu helgi til að kafa í sjónum (og taka “lokaprófið” til að verða kafari) svo þá verður ennþá minni tími til afnota!!
Ég er ekkert alls kostar sátt við að líf mitt hafi verið gleypt af heimadæmum, en hugga mig við að þetta verður að öllum líkindum (7, 9, 13) síðasta skólaárið þar sem ég tek 2 eða fleiri kúrsa á sama misserinu! 🙂
Kafi-skafi!
Annars var köfunardæmið á fimmtudaginn alveg mjög fínt, við fengum að svamla um í 4ra metra djúpri laug og æfa okkur í að stilla loftið í vestinu við botninn svo við flytum hvorki mikið upp eða né sykkjum alveg til botns . Svo var líka æft að synda án grímu smá spöl, lárétt neyðarsund (errm… sem verður æft lóðrétt í Monterey), og svo almennt “svaml”.
Reyndar fékk hin konan (það eru bara tvö pör að taka námskeiðið) smá panikk-kast á fjögra metra dýpi, því henni fannst hún ekki geta andað út um nefið í vatni, og svelgdist því á þegar hún tók grímuna af sér (gríman nær yfir nefið). Hún náði ekki að klára kvöldið (færði sig yfir í grynnri laug til að æfa sig), en vonandi gengur þetta betur hjá henni næst.
Það er svo markmiðið hjá mér í þessari viku að reyna að synda niður á botninn á fjögurra metra lauginni án nokkurs búnaðar (ég er algjör sucker fyrir að kafa í sundlaugum, djúpi endinn í Vesturbæjarlauginni var alltaf minn uppáhaldstaður! 🙂 Við sjáum hvort ég fæ að komast upp með það á fimmtudaginn… hehe… 🙂