Sunnudagur 20. október 2002
Orðin kafarar! 🙂
Við vorum að koma heim eftir vel heppaða ferð til Monterey að klára köfunarnámskeiðið í alvöru sjó! 🙂 Við erum alveg örmagna og gegndrepa af salti (ég held að ég verði að setja næringu í hárið bara til að geta þvegið það með sjampói!) en þrátt fyrir það erum við sæl og glöð – sérstaklega þar sem við erum búin að þvo allar græjurnar og því smá tími til að slaka á.
Við köfuðum fjórum sinnum (2x á laugardegi, 2x á sunnudegi) niður á um 20-30 feta/10 metra dýpi og fyrri daginn var mjög gott skyggni (við sáum niður á botn, sem er gott í Monterey, þar sem maður getur víst auðveldlega ekki séð á sér lappirnar) en síðari daginn var skyggnið ekki alveg eins gott. Við sáum margt merkilegt, t.d. 10 cm langan kolkrabba sem telst víst einsdæmi því þeir eru yfirleitt bara á ferðinni á næturna, fullt af fiskum, hrúgur af krossfiskum, sæfíflum, sardínum og heilu þaraskógana! 🙂
Allt gekk mjög vel fyrir utan það að þurrbúningur leiðbeinandans okkar fór að leka í síðustu köfuninni svo hún var helst til stutt – og greyið hann átti ekki einu sinni að kenna okkur seinni daginn, heldur vinur hans sem sveik hann á síðustu stundu! Hann fór því í heldur “grumpy” skapi sem var leiðinlegt, þar sem hann er alveg súper vingjarnlegur og kátur maður svona yfirleitt! En það breytir því ekki að við erum víst komin með köfunarleyfi – eða “leyfi til að læra köfun betur” eins og einhver sagði! 🙂 Jibbíjei! 🙂