Fimmtudagur 12. september 2002
Yoko Tsuno!
Ég gerðist svo djörf að kaupa fjórar Yoko Tsuno teiknimyndabækur frá Amazon í Frakklandi… og þær komu í dag! 🙂 Nú gætu sumir hrist hausinn – en hver man ekki eftir “Kastaladraugnum“, “Drottningum dauðans” og “Vítiseldinum“?! Þetta voru mínar uppáhaldsteiknimyndabækur þegar ég var yngri og þegar ég rakst á þær í Frakklandi fyrir rúmum 10 árum síðan þá varð ég ekkert smá glöð því í ljós kom að það eru til TUTTUGU og ÞRJÁR Yoko Tsuno bækur… eini gallinn er að þær eru allar á skrítnum tungumálum… 🙂
Á næstu árum fór ég síðan að læra frönsku í menntaskóla og dirfðist því að kaupa mér tvær Yoko Tsuno bækur á frönsku þegar ég skrapp þangað með pabba einhvern tímann – og einhverjum árum eftir það settist ég niður með fransk-enska orðabók og ensk-íslenska orðabók og fór að þýða þær! Það gekk nú svona upp og ofan, en mér tókst að krafla mig nokkurn veginn fram úr amk einni þeirra… Um daginn var ég svo að drepa tímann í vinnunni og mundi þá eftir að Amazon er líka til í Frakklandi – og splæsti á mig 4 nýjar bækur… 🙂 Í kvöld sat ég síðan sæl og glöð fyrir framan tölvuna og sló inn frönsk orð í Babelfish þýðandann hjá Altavista… 🙂 Ég hef það á tilfinningunni að það verði töluvert auðveldara og hraðvirkara að þýða þær þannig en með orðabók… 🙂
Hvað er annars svo merkilegt við Yoko Tsuno?… Ja, hún er eina klára og “eðlilega” kvenkyns teiknimyndahetjan sem ég veit um – og svo er hún rafmagnsverkfræðingur… ! 🙂