Mánudagur 23. september 2002
Rugludallur!
Ok, hversu margir tóku eftir því STRAX að ég hef haldið að það væri ágúst síðan 13. september?! 🙂 Hvað um það, það mun víst vera september og bara tveir dagar í að skólinn byrji aftur… búhú..!! Síðustu dagar hafa verið nokkuð annríkir – á laugardaginn fórum við Finnur og skráðum okkur á köfunarnámskeið og fjárfestum í grunngræjum eins og gleraugum, öndunarpípu, hönskum, skóm og fótblöðkum. Námskeiðið byrjar 1. október og stendur í 3 vikur, 2 kvöld í viku – 1 fyrirlestur og 1 sundlaugartími. Þess fyrir utan fórum við í fertugsafmæli til Siggu úr saumklúbbnum, sem var haldið í Atherton þar sem lóðirnar eru risastórar og húsin voða flott – og með sundlaug.
Á sunnudaginn tók Finnur sig til og setti upp restina af gardínustöngunum og ég faldaði síðan og straujaði gardínurnar. Það er algjört himnaríki að þurfa ekki lengur að horfa upp á þessar hroðalegu lóðréttu plaststrimla-gardínur…. ahhh… þvílíkur léttir! Um kvöldið buðum við Augusto og Fayaz í The Naked Chef mat og Settlers þar sem Finnur vann í bæði skiptin! Grrr…
Í dag var tekið á móti nýjum nemendum við deildina og ég fékk ókeypis hádegismat á móti því að tala við þá. Reyndar sat bara einn við borðið mitt svo þetta var nú ódýr hádegisverður! 🙂 Seinna í dag þá er meiri ókeypis matur á 2. hæðinni og á morgun verður ókeypis matur á okkar hæð. Og síðan verður ekki ókeypis matur svolítið lengi! 🙁