Fimmtudagur 1. ágúst 2002
Heimavinnandi húsmóðir
Ég ákvað að vera heima í dag þar sem ég þurfti að lesa mér til um Wavelets – og það er miklu auðveldara að lesa heima því við eigum svo þægilegan sófa! 🙂 Ég kunni nú bara ágætlega við þetta, tók aðeins til svo það væri verandi í íbúðinni, og las síðan á milli þess sem ég horfði aðeins á sjónvarp. Það er nefnilega ekkert tekið út með sældinni að lesa svona stærðfræði gobbeldígúbb, amk ekki fyrir mig sem geri frekar lítið af því. En ég komst yfir svona 20 blaðsíður sem er svona týpískur kvóti fyrir mig.
Þegar ég var “búin í vinnunni” (heilinn hættur að nenna að skilja gobbeldígúbbið um 5-leytið) þá kláraði ég Bridget Jones’ Diary (ekkert til að skilja, bara hreinræktuð afþreying) og beið síðan eftir að Finnur kæmi heim. Um kvöldmatarleytið bólaði ekkert á drengsa og eftir að hafa hringt í hann þá var ljóst að það væri ekkert von á honum í bráð! Því tók mín upp á því að hita tvær íslenskar pylsur – og steikja lauk!! Hér er nefnilega ekki hægt að kaupa steiktan lauk, þannig að ég reyndi að gera minn eigin.
Ég hitaði heilmikið af olíu í litlum potti – og svo laukinn út í. Þegar ég var búin að setja laukinn út í fattaði ég að við eigum ekkert eldvarnarteppi fyrir olíu-á-eldavél-bruna sem gerði mig nokkuð nervös – en sem betur fór allt vel og það kviknaði ekki í neinu. Laukurinn kom svona lala út… ég held að ég hafi brennt eitthvað af honum – og hann líktist ekki mikið þessum týpíska steikta lauk sem maður fær heima… en ég notaði hann samt og pylsurnar voru bara frekar góðar! 🙂