Föstudagur 2. ágúst 2002
Fæðingarbletti fátækari
Ég fór í dag á húðdeildina í Stanford og þar var tekinn fæðingarblettur af bakinu á mér því ég var farin að klóra hann til blóðs. Hann var einhverjir 9 mm í þvermál (reyndar svolítið ílangur) og þurfti 4 sauma til að loka sárinu. Merkilegast við þetta allt saman fannst mér hins vegar að fyrir aðgerðina var skellt á upphandlegginn á mér stórum (10x20cm) plastleppa/límmiða sem var stungið í samband við skurðarborðið – þar með var búið að jarðtengja mig! Þeir nota nefnilega einhverja rafmagnsbyssu til að loka fyrir blóðflæðið þegar búið er að skera og þá er nú betra að jarðtengja sjúklinginn svo hann fari ekki í hjartastopp! 🙂
Saumó í San Fran
Þar sem áfengisneysla er bönnuð eftir skurðaðgerðir (þó svo að það hafi bara verið staðdeyft) þá bauðst ég til að skutla nokkrum skvísum upp í San Fran til Lottu sem var með saumaklúbb. Skutlið gekk allt of vel (hvar voru umferðartafirnar?!?!) þannig að við frömdum erkisynd gestanna og mættum 10 mínútum of snemma!! Þrátt fyrir að hafa komið Lottu í opna skjöldu, þá reyndust veitingarnar himneskar og saumaklúbburinn var fjörugur að vanda! Takk fyrir okkur Lotta! 🙂 (Finnur var í innflutningspartý hjá Loga á meðan…)