Þriðjudagur 6. ágúst 2002
Flokkunardýrið ógurlega
Ég ákvað að mæta í skólann í dag en í staðinn fyrir að gera nokkuð af viti þá fór ég að búa til merkimiða fyrir allar skólamöppurnar mínar sem eru á hillu fyrir ofan skrifborðið mitt. Þær eru tæplega 20 talsins – einn kúrs per möppu – og hafa hingað til verið merktar kúrsanafninu eingöngu með handskrifðum ljótum miðum. Núna er hins vegar kominn skikkur á þetta, almennilegir merkimiðar með kúrsanúmeri, kúrsanafni, hvenær ég tók kúrsinn og hjá hvaða proffa, svo ekki sé minnst á nafnið mitt svo ég viti að þetta séu mínar möppur! En til að kóróna þetta þá eru þær litakóðaðar, allar möppurnar frá fyrsta ári eru með rauðleitu kúrsanúmeri en þær sem eru frá öðru ári hafa grænleit kúrsanúmer. Ég held að þetta ár (þriðja) verði bláleitt. Svo hafa möppurnar frá sama misseri sama lit… 🙂
Rafmagnsverkfræðingurinn ógurlegi
Þegar ég var við það að fara að gera eitthvað af viti (allar möppurnar orðnar fínar) þá kom maður með minnið sem ég hafði keypt í tölvuna mína – heil 512 MB í viðbót við þessi 128 MB sem voru fyrir. Ég varð því að opna tölvuna og setja minnið í. Ótrúlegt en satt þá virkaði það í fyrsta – en þá tók ég eftir að tvær viftur virkuðu ekki í tölvunni. Önnur var lítil og nett á móðurborðinu og hún fór í gang þegar ég potaði í hana. Hin var stór vifta sem ræsir út allan kassann. Hún fór ekki í gang þegar ég potaði í hana nema í stutta stund í einu og þá með skruðningum og látum.
Ég fór því á stúfana og fékk leyfi til að hirða viftu úr gamalli tölvu sem átti að henda. Síðan fékk ég lánaðan lóðbolta og tin og sauð saman nokkra víra til að tengja nýju viftuna í staðinn fyrir þá gömlu. Og hún bara svínvirkaði þegar ég kveikti á tölvunni. Ahhh… gleði, gleði!! En núna er líka dagurinn búinn og ég ekki búin að gera neitt af “viti”… 😉