Sunnudagur 11. ágúst 2002
Ferðaflakk
Þar sem það var spáð 27-29 stiga hita í dag ákváðum við að fara í ferðalag og missa þannig af mesta hitanum – enda eigum við góðan bíl með góðri loftkælingu. Fyrir valinu varð að fara beint norður, yfir Golden Gate brúna og út að strönd. Á leiðinni á ströndina stoppuðum við í Muir Woods National Monument til að kíkja á rauðviðartré sem mörg hver eru 76 metrar á hæð, sem er á við eina Hallgrímskirkju! Tréin voru mjög flott, ég vona bara að myndirnar heppnast sæmilega…
Síðan kíktum við aðeins á Stinson Beach, en þar var eiginlega komin köld gola svo við skakklöppuðumst aftur til baka. Eftir að hafa borðað kvöldmat í Sausalito keyrðum við sem leið lá yfir Golden Gate og suður til Mountain View. Það skal tekið fram að við tókum ekki neitt eftir “hertum öryggisráðstöfunum” á brúnni, við sáum að vísu einn lögreglubíl, en við vorum örugglega 10-15 mínútur á leiðinni yfir brúna því það var svo mikil traffík…
Fundum þegar heim var komið season 3, disk 3 og horfðum á hann allan á einu kvöldi! Sussubía!