Mánudagur 3. júní 2002
Kennsludagur
Í dag var mín fyrsta og líklega eina alvöru kennslustund í Stanford. Hann Prófessor Fraser-Smith ákvað nefnilega að fara í einhverja jarðfræðiferð í White Mountains og fékk mig til að segja Planetary Exploration bekknum frá loftsteinum (meteors and meterorites) í fjarveru sinni. Í gærkvöldi æfði ég mig aðeins á Finni og komst að því að ég var með svona 20 mínútur af efni… sem var ekki alveg nógu gott því tíminn átti að vera 50 mínútur! Reyndar átti ég að dreifa 15 mínútna kennslukönnun líka þannig að þá voru eftir 35 mínútur… sem sagt 15 mínútur af engu. Ég hafði nú engar rosalegar áhyggjur af þessu, hugsaði sem svo að ég gæti verið 5 mínútum of sein eins og F-S er yfirleitt, og/eða tekið mér 5 mínútur í að skila heimadæmum til baka – en þegar á hólminn var komið þá var ég mætt allt of snemma (beint frá radartímanum) og náði að losa mig við heilmikið af heimadæmunum áður en tíminn byrjaði! Því fór það svo að þegar ég var búin með mína 20 mínútna tölu, bað ég fólk um að fylla út kennslukönnunina og sagði þeim að njóta þess sem eftir væri af deginum og lét mig hverfa…! 🙂 En þar sem þessi kúrs er frekar líbó þá hef ég engar sérstakar áhyggjur af þessu… Það sofnaði amk enginn! hehe…
Í öðrum fréttum er helst það að mér miðar lítið áfram með skilaverkefni vikunnar, hef verið föst í að leiðrétta villur úr þar-síðustu viku, en amk gengur mér betur en skrifstofusystur minni sem er orðin svo svefnvana eftir misserið að hún gerir ótrúlegustu forritunarvillur og situr klukkutímum saman fyrir framan tölvuna og ekkert virkar. Og þar sem hún er gera lokaverkefni (sama og ég gerði í síðustu viku) þá má ég ekki hjálpa henni… Hún er núna búin að sverja þess dýran eið að taka aldrei framar þrjá kúrsa í einu , tveir eru alveg nóg!…