Fimmtudagur 6. júní 2002
Rétt slapp!
Þetta misserið var ég bara skráð í tvo alvöru kúrsa og svo þriggja eininga “pass/fail” rannsóknakúrs. Þar sem Linscott sem ég vinn hjá er ekki alvöru prófessor heldur yfir-aðstoðar-rannsóknaraðili, þá verð ég að taka rannsóknakúrsa í gegnum Prófessor Tyler sem er allur fyrir formlegheitin og vill að allt sé gert vel og rétt, sem er mjög gott… Nema þegar hann mætir á skrifstofuna án þess að gera boð á undan sér (hann er búinn að vera meira og minna í burtu allt misserið) og spyr hvað maður hafi nú gert í rannsóknum, hann þurfi nefnilega að gefa mér Pass eða Fail fyrir rannsóknarvinnuna mína…!!! Ég hafði haldið að hann myndi bara spyrja Linscott… en Linscott er í burtu þannig að ég lenti sjálf í súpunni!!
Oh boy! Ég var algjörlega óundirbúin, en mér til láns þá náði ég að vinna að “rannsóknum” í tvo daga þetta misserið (einhvern tímann í apríl!) og prentaði þá út nokkur gröf sem ég geymdi á skrifborðinu mínu… Mér til mikillar gleði tók hann þessum gröf sem næg merki þess að ég hefði verið að vinna að rannsóknum og gaf mér Pass…. Hjúkkett! 🙂
Bæ, bæ C++
Í dag skilaði ég líka af mér síðasta forritunarverkefninu í tónlistarkúrsinum. Við áttum að búa til gítar og síðan setja hann í gegnum “hljóðgervil” sem við bjuggum til fyrir einhverju síðan. Þar sem ég er orðin algjörlega metnaðarlaus núna undir lokin þá útfærði ég ekki einn einasta af “optional” hlutunum sem ég hefði getað gert, heldur skilaði inn algjörri grunnlausn… sussubía! Til að bæta gráu ofan á svart þá spila ég ekki á neitt hljóðfæri (nema ef vera skyldi blokkflautu) þannig að ég var ekki einu sinni viss um að þetta væri boðlegur gítar…ég er eiginlega á því að síðasta nótan sé eitthvað fölsk…? En ef einhver er forvitinn þá er gítar-demóið mitt hér (arpeggio C chord og svo C chord, allt endurtekið í gegnum Leslie einingu)…