Sunnudagur 23. júní 2002
Ýkt pakkaður dagur!
Dagurinn hófst á því að ég skutlaði Finni í vinnuna en tók í staðinn Tomma, Stínu, Erni og Marylinn upp að disknum stóra svo ég gæti ýtt á takkana mína og sýnt þeim útsýnið. Þegar þangað var komið tókum við erftir því að það voru engir skýjabakkar á fjöllunum sem þýddi að veðrið við ströndina var gott (oft er skýjað þar) svo við náðum í Finn og aukabíl og skutluðumst til Santa Cruz. Þar fórum við í tvo rússibana og dýfðum tánum í kalt Kyrrahafið áður en við keyrðum upp með ströndinni í átt að San Francisco.
Þegar við vorum hálfnuð þangað keyrðum við inn í skýjabakkann sem er venjulega “parkeraður” á þessum stað og vorum inni í honum alveg þar til við vorum hálfnuð yfir Golden Gate brúna… og ég er ekkert að grínast með þetta “vorum hálfnuð”. Þegar við keyrðum inn á brúna sáum við varla stálvírana sem halda henni uppi… en þegar við vorum hálfnuð yfir hurfu öll ský og restin af brúnni blasti við!!! Eftir að hafa tekið nokkrar myndir af hálfri brúnni (og toppnum af stólpa númer tvö) héldum við til Úlfars og Lottu sem búa í San Fran og fórum út með þeim að borða. Síðan var keyrt heim, enda klukkan að verða 10 um kvöld.
Ég efast stórlega um að ég hafi afrekað svona mikið á einum degi í marga mánuði!!! 🙂 Og já, ég tók myndir upp á rúmlega 100 MB í dag… ahemm… hehe… ætli þetta verði ekki bara brennt á geisladisk fyrir familíuna heima? 🙂