Laugardagur 4. maí 2002
Allir í bíó! 🙂
Ég vaknaði í algjöru stresskasti í morgun yfir því að muna ekki hvað ég ætti að gera í dag. Mér fannst sem sagt eins og ég ætti að gera eitthvað en vissi samt að það væri ekkert sem ég ætti að vera að gera. Ég held að þetta heiti að geta ekki slakað á… 🙂 Í panikki mínu yfir að hafa ekkert að gera hafði ég samband við Augusto á MSN messenger og var næstum búin að tæla hann til að sjá Spider-Man á laugardagshádegi með okkur Finni!! Eftir nokkrar umræður ákváðum við í staðinn að fara klukkan 16:50 því mig langaði til að sleppa við kraðakið sem myndast við bíóið á laugardagskvöldum.
Síðan fór Finnur í vinnuna (já, á laugardegi) og ég sat heima og reyndi að jafna mig á því að hafa ekkert að gera… Datt þá í hug að hringja í pabba í Englandi og fjölskylduna heima á Íslandi á meðan að ég þvoði þrjár þvottavélar. Þegar þvottavélarnar voru búnar fórum við til Augusto og skildum eftir saumaklúbbsleyfarnar áður en við skruppum í bíó að sjá Spider-Man sem var bara alveg mjög góð mynd. A.m.k. langar nördanum í mér að sjá hana aftur og þá annað hvort á stóra skjánum og þá aftar í salnum (við vorum á þriðja bekk því við mættum svo seint) eða bara í sjónvarpi. Við sjáum hvað setur.
Að bíói loknu fórum við heim til Augusto þar sem hann eldaði pizzur ofan í okkur og fleiri gesti, og Finnur blandaði “milkshake” í “blendernum” okkar með ís sem hann fékk gefins síðasta föstudag á skandinavísku grillkvöldi! Gulrótarkakan (skyndilega minna sterk, ég held að við höfum bara byrjað á vitlausum enda í gærkvöldi!) og ostakakan hurfu einnig ofan í fólk. Í lokin spiluðum við Actionary, Evrópubúar á móti Bandaríkjamönnum og við unnum!! 🙂