Föstudagur 5. apríl 2002
Skrifræðishelvíti
Kláraði að skrifa upp kúrsana sem ég ætla að taka til að uppfylla skilyrðin fyrir doktorsgráðuna. Nú er bara að fá proffann til að skrifa undir, en hann kemur á mánudaginn. Annars líður mér eins og ég sé í skrifræðishelvíti. Ég þarf að: 1) hjálpa Finni að klára skattskýrslu fyrir USA (federal og state), 2) klára skattskýrslu fyrir Íslandi 3) fá mastersplanið mitt undirskrifað svo ég fái mastersgráðuna í sumar, 4) fá kúrsaplanið undirskrifað af proffanum til að ég geti sótt um áframhaldandi húsnæði hjá Stanford, 5) sækja um áframhaldandi húsnæði hjá Stanford svo við þurfum ekki að flytja í júní, 6) sækja um nýtt landvistarleyfi í gegnum Stanford, svokallað IAP-66 form, 7) fá vottorð um nægilegan fjárstuðning til að geta sótt um nýtt IAP-66, 8) fá proffann til að skrifa undir að ég sé í “good standing” í mínu námi til að geta fengið IAP-66, 9) fylla inn eyðublað fyrir IIE (Fulbright) um að ég sé að klára mitt mastersnám og að ég vilji ekki vera hjá þeim áfram, 10) úff tíu… ég er örugglega að gleyma einhverju! Ó, jú… þetta þarf allt að gerast fyrir 15. apríl – eða í næstu viku sem sagt!
Í algjöru kæruleysi ákváðum við hins vegar að halda upp á afmæli Violu og Davids Hole í dag – og héldum til þess CoHo fund í Packard. Eftir það fórum við með Augusto, Fayaz, Söru, David og Melanie og fengum okkur mexíkanskan mat og kvöldið endaði yfir Moulin Rouge DVD heima hjá okkur.