Mánudagur 15. apríl 2002
Skattadagur í USA
Í dag eiga allir að skila inn skattinum sínum – en sem betur fer rumpuðum við Finnur þessu af í síðustu viku! 🙂 Okkur til mikillar gleði þá eigum við von á feitri innistæðu frá IRS því Finnur borgaði heldur of mikla staðgreiðslu á árinu sem leið. Síðan sendum við líka inn skattinn okkar á Íslandi á sunnudagskvöldið og nú er að sjá hvort tvísköttunarsamningarnir eru sannir eður ei. Helst viljum við ekki tvíborga skatt af laununum okkar!
Svo gerði ég mig að stórkostlegu fífli í gær. Sendi út hóppóst á bekkinn til að tilkynna um villu í heimadæmunum, en það tókst ekki betur en svo að ég leiðrétti vitlaust. Að sjálfsögðu sendi ég út leiðréttingu á leiðréttingunni en tókst þá að klúðra númerinu á heimadæmunum. Ég ákvað að láta þar við sitja frekar en að hætta á frekara póstklúður! Ég er búin að fá amk eitt “Hehe :)!” í tölvupósti út af þessu…