Laugardagur 23. mars 2002
Foreldrarnir stungnir af
Hulda og Ágúst stungu af til Tenerífe í dag, hann á sendiráðs/diplómata-fund, og hún með í endurnæringarskyni. Svo er nefnilega í pottinn búinn að börnin þeirra tvö, Ásdís Sól (3) og Óðinn (1), eru búin að vera veik frá því í nóvember, og foreldrarnir orðnir langþreyttir. Í fjóra dag ætla því amma, Unnar Huldusonur og Hjörtur Ágústsson að hugsa um Ásdísi og Óðinn sem eru á sínum 7. pensílínskammti. Við pabbi og Anthony hjálpum til í byrjun en förum til Englands aftur á morgun.
Annars halda svefnvandræði mín áfram. Klukkan 2 í nótt vaknaði Óðinn með öskrum og látum og amma ruglaðist á barnabörnum og þaut út úr herberginu áður en hún áttaði sig á því að hún átti bara að hugsa um Ásdísi (við vorum þrjár saman í herbergi, og ég í efri koju, nokkuð sem ég hef ekki gert í laaangan tíma!). Svo kom hún inn aftur, en hafði vakið mig allsvakalega í leiðinni. Svo þegar ég var rétt sofnuð heyrði ég í flugu og þar með var úti um nokkurn svefn til klukkan 7 um morguninn. Ég sofnaði sem sagt þegar allir aðrir fóru á lappir!
Við fórum ekkert í dag, vorum bara með börnin inni og vonuðum að þau trylltust ekki af foreldraleysinu. Sem betur fer voru þau hin þægustu og núna er verið að svæfa…zzz…