Mánudagur 25. febrúar 2002
Strætósnilld
Ég beið í makindum mínum á rauðu ljósi á leiðinni að ná í Finn úr vinnunni í gærkveldi, þegar allt í einu keyrir fram hjá mér löggubíll með ljósin á. Ég horfi síðan á eftir honum og sé að hann tekur upp á því að elta strætisvagn nokkurn. Strætóinn stoppar á næstu stoppistöð og þá tek ég eftir því að í glugganum aftan á strætó (sem inniheldur venjulega leiðanúmerið) blikka eftirfarandi skilaboð: CALL – COPS – 911 – HELP! Þess fyrir utan blikkuðu öll afturljósin á honum í hazardljósatakti! Ég sá hvar löggan steig út úr bílnum og talaði við strætóstjórann og fór síðan aftur í bílinn sinn.
Þegar þarna var komið keyrði ég fram hjá, enda rauða ljósið orðið grænt og það síðasta sem ég sá var að allt virtist vera með kyrrum kjörum í strætónum en að framan á honum (þar sem venjulega er leiðanúmer og leiðanafn) stóð stórum stöfum EMERGENCY.
Mér fannst þetta kerfi vera algjör snilld, því ef eitthvað kemur fyrir þá getur strætóstjórinn bara ýtt á takka og löggan kemur aðvífandi! 🙂