Miðvikudagur 7. nóvember
Miðsvetrarpróf, Macy’s, Matur, Mest Ming, Muffy (the Musical) og Moswell
Fór í miðsvetrarpróf nr. 2 eftir hádegi. Gjörsamlega klúðraði a.m.k einni spurningu af þremur… nú er bara að bíða og sjá hversu vel eða illa aðrir klúðruðu miðað við mig… Einkunnakerfið hérna er nefnilega ekki svo mikið háð því hvað maður fær mörg stig heldur hvernig öllum hinum gekk. Er það nú ekki bara alveg týpískt?! Eftir að prófið var búið skruppum við Deirdre, Kerri og Cari (gömul vinkona Kerriar sem er í heimsókn) út í the Stanford Shopping Center, eða til að vera nákvæm þá fórum við í Macy’s sem er algjör eðalbúð en heldur dýr. En þeir eru eiginlega alltaf með föt á útsölu…
Markmið ferðarinnar var tvíþætt – 1) að kaupa kjól á Kerri sem er að fara á fínt ball með John á laugardaginn og 2) að kaupa buxur á mig. Eftir að hafa fundið nokkra stuttermaboli fórum við og fundum Kerri á hvolfi í kjóladeildinni þar sem hún var búin að fá eina aðstoðarkonuna til að hjálpa sér. Næsti kjóll sem hún prófaði smellpassaði alveg, þannig að hún ákvað að kaupa hann. Hann er svartur úr velúri (held ég) með v hálsmál skreytt “gimsteinum” og voða flottur! Því næst var komið að mér. Ég og Deirdre plöntuðum okkur inni í mátunarklefa og Kerri – hin ótrúlega verslunarkona – fór og náði svo gott sem í allar buxur númer 10 á svæðinu og lét mig máta! Ég er ekki að grínast… ég held að ég hafi mátað 20-30 pör af buxum í dag! Að lokum tókst okkur að velja fjögur pör sem komu til greina og þar af valdi ég tvö. Núna á ég sem sagt tvöfalt fleiri buxur en í morgun! 🙂 Og í fyrsta skipti í einhver ár er ég aftur komin í gallabuxur! Þess má geta að DKNY og Tommy Hilfiger virðast vera einu merkin sem passa á minn afturenda… og ekki ætla ég að kvarta! 😉
Því næst hlupum við Deirdre til baka í Packard og hjóluðum eins og eldibrandar út á lestarstöð því við héldum að við ættum að vera mættar niður í miðbæ Mountain View klukkan 19:00. Svo kom í ljós að það var ekki fyrr en 19:30 svo að ég fór heim og fór í nýju fötin mín! Síðan komu Deirdre og Matt og náðu í mig og við hittum Finn og mömmu Matts og fórum með þeim að borða á Taj Mahal. Mamma Matt er í heimsókn hjá honum því hún er að skilja við manninn sinn (sem er víst búinn að finna sér nýja en ekki mikið yngri samt)… og mamman er í algjörri krísu. Við erum búin að heyra svo mikið um þetta skilnaðarmál allt saman að ég bara gat ekki sleppt tækifærinu að hitta manneskjuna! Og hún var bara fín… svoldið á taugum… en annars býst ég við að hún kunni að haga sér vel fyrir framan ókunnuga 🙂
Eftir matinn fórum við heim og horfðum á West Wing kvöldsins (ég ákvað að gefa mér frí í dag og bara horfa á sjónvarpið eins og venjulega manneskja) og síðan stakk ég Buffy the Musical í tækið sem ég náði ekki að horfa á í gær… Frááábær þáttur. Alveg frábær. Ég á meiri að segja eftir að horfa á hann aftur því hann var svo skemmtilegur. 🙂 Og já, var ég búin að minnast á að Josh Weadon er guð? Anyway. Horfði líka á Roswell í leiðinni. Mikið var að “Max” fór í klippingu! Meira hef ég ekki að segja. Á morgun tekur við “life as usual” ásamt því að Sarah á afmæli.