Laugardagur 17. nóvember
Busy busy
Það er búið að standa til í nokkurn tíma að halda “til hamingju með trúlofunina” -partý handa Tom og Taly en í gærkvöldi kom í ljós að Tom myndi ekki mæta nógu snemma til Kaliforníu þannig að það leit út fyrir að það yrði ekkert partý. Taly hins vegar vildi ennþá fá að smakka Lasagne-ið hennar mömmu hennar Kerri og því var nokkrum sálum stefnt heim til okkar í kvöld til að borða nammi góðan mat. Í tilefni af því þá tókum við Finnur til í dag (í fyrsta skipti í einhverja mánuði… ahemm) og núna er íbúðin alveg “squeaky clean”. Þar sem hún er teppalögð upplifum við hins vegar ekki lengur bergmálið sem fylgdi því þegar við tókum til í gömlu parketlögðu íbúðinni okkar heima, sem er miður! Hvað um það, Deirdre, Matt, Kerri, Taly, Erin, Tim, Augusto og vinur hans hann Nick, komu og fengu mat (ég töfraði fram salat úr poka) og síðan var hópferð á Harry Potter sem Tim varð að svindla sér inn á því hann var sá eini sem keypti ekki miða á www.fandango.com eins og allir hinir… En sem betur fer voru miðaverðirnir ekkert sérstaklega vakandi þannig að það gekk alveg… Myndin var fín! Ég get samt ekki beðið eftir að sjá hana aftur þegar “hæpið” er aðeins farið að gleymast því þá kemur fyrst í ljós hvort myndin er góð eða ekki.
Leónítar
Eftir Harry Potter þá fórum við með Matt, Deirdre og Rebeccu (herbergisfélaga Deirdre) upp í hæðirnar hérna fyrir ofan og lágum undir og ofan á teppum og horfðum á loftsteinahríðina sem er kennd við ljónsmerkið. Við sáum fullt af loftsteinum en aðeins einn þeirra var mjög stór. Hinir voru litlir og afskaplega skammlífir – en ég held að við höfum líklega séð um 200 steina á þessum klukkutíma sem við lágum og horfðum upp í loftið. Yfirleitt leið smá á milli þeirra en stundum komu tveir eða þrír í einu – svo ekki sé minnst á það að maður nær ekki að horfa á nema brot af himninum í einu þannig að við misstum af góðum slatta…