Þriðjudagur 20. nóvember
Ahhhh…
Öll miðsvetrarpróf eru hér með búin… Veieieiei! 🙂 Og merkilegt nokk þá var þetta próf ekki sú tegurmartröð sem það hefði getað verið. Eða það held ég… kannski að ég hafi rangt fyrir mér og þá hefur mér gengið alveg hroðalega! Anners eru bara eftir: ca. 3 heilir heimadæmaskammtar, lokaverkefni í EE359, lokapróf í EE141, EE264 og EE359 og þá get ég farið heim í jólafrí (14.des) til að sofa og læra undir kvalirnar. Ain’t life SWEET!?!?!? 😉 (Hei, á meðan maður býr ekki í Afganistan þá er allt ljúft!)
Og já… minnið mig á að fá Finn til að skrifa INS söguna sína. Hún er ágætlega svæsin… 😉
Buxnaupphysjun
Er að fara í miðsvetrarpróf á eftir. Það er svo sem ekki eins merkilegt og GRE-ið sem Kristján er að fara í en mig dauðkvíður fyrir því samt! 🙁 Eina góða er að þegar það er búið þá fer ég heim að horfa á Buffy og klippa hárið á Finni. Verst að prófið er ekki búið fyrr en klukkan 21… Það er á svona stundum þegar ég óska þess að hafa nú lært meiri stærðfræði því þetta próf verður tegur-próf frá a til ö með nóg af línu-, svæðis- og rúmmálstegrum til að gera hvern mann (eða konu) óðan!! Svo þarf ég bara að ganga frá tveimur heimadæmum og skrifa verkefnislýsingu fyrir “wireless” kúrsinn og þá getum við keyrt suður!
Best að rifja upp atburði síðustu daga:
Mánudagur 19. nóvember
Fór snemma heim til að læra fyrir síðasta miðsvetrarprófið (maður hefði nú haldið að miðveturinn væri búinn … enda bara rúmar 2 skólavikur eftir af 10) sem er klukkan 19 á þriðjudagskvöldi. Hér er komið prófið sem ég er búin að kvíða fyrir í allan vetur – Rafsegulfræði – með stóru R-i. Finnur reyndi að fara til INS til að sækja um tímabundið atvinnuleyfi en þeir sögðu honum að mæta aftur klukkan 07:00 næsta dag. Pabbi minn kom ásamt Anthony litla til LA frá London í dag og dvelur núna hjá systur sinni, Gunnhildi og Co. Við ætlum að keyra niður til þeirra á miðvikudaginn.
Sunnudagur 18. nóvember
Mætti alveg grútmygluð á kvalafund og gekk alveg hroðalega. Reyndi svo að læra eitthvað smá en drattaðist loksins heim og fór að sofa. Þetta fær maður fyrir að skoða loftsteina! Fórum svo til Augusto í pizzuveislu (nammi namm) þar sem við átum á okkur gat (líka þegar David Hooper bjó til súkkulaðiköku og við átum ís með… nammi namm!) og enduðum kvöldið á því að horfa á The Matrix í n-ta skipti. Reyndar var svo langt frá því að við sáum hana síðast að ég var komin með fráhvarfseinkenni. Það var því glöð lítil Hrefna sem fór að sofa á sunnudagskvöldið enda búin að fylla hausinn af tilbúnum heimum alla helgina – fyrst Harry Potter heimi og svo Matrix-heimi. 🙂