Mánudagur 29. október
Rigning!
Í dag kom fyrsta haustrigningin – og það á víst að rigna líka á morgun. Reyndar hefur þetta hingað til mest verið svona úðarigning eða a.m.k. frekar kraftlaus rigning, en ég hef fulla trú á að rigningin snúi aftur í janúar og verði þá tölvuvert viðskotaillri! Annars var dagurinn bara rólegur. Landkarlinn (eiginmaður landlady-arinnar, hann er algjör elska) kom í morgun og kíkti á baðkranann okkar. Hann sagðist vera hissa á að hann væri bilaður því þetta er víst splúnkunýr krani. En hann ætlaði að taka vatnið af húsinu og láta gera við þetta okkur að kostnaðarlausu. Sjúkkett! Eftir það skutlaði Finnur mér út á lestarstöð því hjólið mitt (eða reyndar hjólið hans Gulla) hvíldi sig á kampus um helgina. Annars munaði minnstu að ég næði ekki lestinni… hún var að renna inn á stöðina í þeirri mund sem við komum að. Þá var bara að taka til fótanna! 😉
Dagurinn leið svo eins og flestir aðrir í tíma- og heimadæmaskýi en hápunktur dagsins var vafalaust að fara niður á kaffihúsið og kaupa möffins! Mmmm… gott! Hitti svo kvalahóp númer 2 sem ég ætla núna að stúdera með á mánudagskvöldum og leist bara vel á fólkið. Shahriyar skutlaði mér heim og núna er ég við það að fara að hlamma mér niður fyrir framan sjónvarpið og horfa á Angel kvöldsins…